Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur áhyggjur af stöðu mála á Englandi vegna kórónuveirufaraldursins.
Á mánudaginn funduðu fyrirliðar liða í deildinni, sem og þjálfarar í deildinni, um stöðuna og hvort það kæmi til greina að gera hlé á keppni vegna mikilla aukningu smita hjá leikmönnum og starfsmönnum liða í ensku úrvalsdeildinni.
Að endingu var ákveðið að halda leik áfram í deildinni en það er leikið mjög þétt í úrvalsdeildinni yfir hátíðarnar.
„Fólk gerir sér held ég ekki grein fyrir því hversu mikil ákefðin er í leikjum í úrvalsdeildinni,“ sagði Henderson í samtali við BBC Sport.
„Líf okkar snýst um fótbolta og við viljum geta lagt okkur 150% fram í öllum leikjum sem við spiluðum. Það er mjög erfitt að gera það í hverjum einasta leik í jólatörninni og það er ennþá erfiðara núna vegna kórónuveirunnar.
Það eru margir leikmenn frá og álagið eykst því til muna á þá leikmenn sem eru leikfærir. Ég hef miklar áhyggjur af stöðunni og helsta áhyggjuefnið er auðvitað að fólki virðist vera nokkuð sama um heilsu leikmanna,“ sagði Henderson í samtali við BBC Sport.