Joe Rodon, miðvörður Tottenham og landsliðs Wales í knattspyrnu, er meðal þeirra leikmanna sem talið er líklegt að verði á faraldsfæti í janúarmánuði þegar opnað verður fyrir félagaskiptin.
Rodon hefur verið úti í kuldanum hjá Tottenham í vetur og netmiðillinn Wales Online segir að bæði Newcastle og Leeds vilji fá hann í sínar raðir. Þá séu samkvæmt heimildum bæði Brighton og Watford áhugasöm. Graham Potter, knattspyrnustjóri Brighton, var með Rodon sem leikmann hjá Swansea á sínum tíma og þekkir vel til hans.
Rodon, sem er 24 ára gamall, hefur aðallega spilað Evrópuleiki með Tottenham í vetur, fjóra slíka, en hefur aðeins komið við sögu í einum leik í úrvalsdeildinni og einum í deildabikarnum. Hann er hinsvegar fastamaður í landsliði Wales.