Úrslitin á Anfield réðust í vítaspyrnukeppni

Diogo Jota fagnar marki í kvöld.
Diogo Jota fagnar marki í kvöld. AFP

Liverpool varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu en í undanúrslitum leika einnig Arsenal, Chelsea og Tottenham.

Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit hjá Liverpool og Leicester á Anfield í kvöld. Jafnt var 3:3 að loknum venjulegum leiktíma og einnig var jafnt eftir liðin höfðu bæðið tekið fimm spyrnur í vítakeppninni. Svo fór að Diogo Jota skoraði úr sjöttu spyrnu Liverpool og tryggði liðinu sigurinn. Ekki er gripið til framlengingar í deildabikarnum. 

Útlitið var ekkert sérstakt fyrir Liverpool eftir 45 mínútur. Þá hafði Leicester 3:1 yfir og Jamie Vardy var í stuði. Hann skoraði tvívegis og James Maddison einu sinni. Alex Oxlade-Chamberlain skoraði fyrsta mark Liverpool en í síðari hálfleik bættu þeir Jota og Takumi Minamino við mörkum og jöfnuðu 3:3.

Minamino upplifði bæði neikvæða og jákvæða hluti í leiknum. Hann knúði fram vítaspyrnukeppnina fyrir Liverpool en jöfnunarmark hans kom ekki fyrr en á fimmtu mínútu í uppbótartíma. Það kom ekki að sök því Caoimhin Kelleher markvörður Liverpool varði sjöttu spyrnu Leicester frá Ryan Bertrand. Jota tryggði Liverpool sigurinn í framhaldinu. 

Milner, Firmino, Oxlade-Chamberlain og Keita skoruðu úr fyrstu fjórum spyrnum Liverpool. Tielemans, Maddison, Albrighton og Iheanacho skoruðu úr vítum fyrir Leicester en Thomas nýtti ekki fjórðu spyrnu Leicester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert