Liverpool varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu en í undanúrslitum leika einnig Arsenal, Chelsea og Tottenham.
Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit hjá Liverpool og Leicester á Anfield í kvöld. Jafnt var 3:3 að loknum venjulegum leiktíma og einnig var jafnt eftir liðin höfðu bæðið tekið fimm spyrnur í vítakeppninni. Svo fór að Diogo Jota skoraði úr sjöttu spyrnu Liverpool og tryggði liðinu sigurinn. Ekki er gripið til framlengingar í deildabikarnum.
Útlitið var ekkert sérstakt fyrir Liverpool eftir 45 mínútur. Þá hafði Leicester 3:1 yfir og Jamie Vardy var í stuði. Hann skoraði tvívegis og James Maddison einu sinni. Alex Oxlade-Chamberlain skoraði fyrsta mark Liverpool en í síðari hálfleik bættu þeir Jota og Takumi Minamino við mörkum og jöfnuðu 3:3.
Minamino upplifði bæði neikvæða og jákvæða hluti í leiknum. Hann knúði fram vítaspyrnukeppnina fyrir Liverpool en jöfnunarmark hans kom ekki fyrr en á fimmtu mínútu í uppbótartíma. Það kom ekki að sök því Caoimhin Kelleher markvörður Liverpool varði sjöttu spyrnu Leicester frá Ryan Bertrand. Jota tryggði Liverpool sigurinn í framhaldinu.
Milner, Firmino, Oxlade-Chamberlain og Keita skoruðu úr fyrstu fjórum spyrnum Liverpool. Tielemans, Maddison, Albrighton og Iheanacho skoruðu úr vítum fyrir Leicester en Thomas nýtti ekki fjórðu spyrnu Leicester.