Ralph Hasenhüttl, knattspyrnustjóri Southampton, segir að engin kórónuveirusmit hafi komið upp í sínum leikmannahópi og allt sé gert til að forðast að það gerist.
„Við reynum að fylgja öllum reglum og höldum áfram með það sem hefur reynst okkur vel til þessa. Sem stendur hittumst við ekkert innanhúss. Í gær klæddu allir sig í bílunum fyrir æfingu og fóru síðan beint heim að henni lokinni.
Þetta er ekki besti undirbúningur fyrir leiki en við reynum að halda í lágmarki þeim tíma sem við verjum utan vallar á æfingasvæðinu," sagði Hassenhüttl.
Southampton á að sækja West Ham heim til Austur-London á öðrum degi jóla.