Með níu útispilara fyrir leikinn á sunnudag

Rafael Benítez er knattspyrnustjóri Everton.
Rafael Benítez er knattspyrnustjóri Everton. AFP

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Everton kveðst ekki sjá fram á að leikur liðsins  við Burnley í ensku úrvalsdeildinni fari fram á sunnudaginn, annan dag jóla, eins og leikjadagskráin segir til um.

Þegar hefur tveimur leikjum sunnudagsins verið frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Leeds og Watford, sem áttu að heimsækja Liverpool og Wolves.

Benítez sagði á fréttamannafundi í dag að hann væri bara með níu leikfæra útispilara og svo þrjá markverði. Sex væru meiddir og fimm í einangrun vegna kórónuveirunnar.

„Nú verð ég að bíða og sjá hvort við eigum ellefu leikmenn í leikinn. Ég er mjög hissa á að hann skuli enn vera á dagskránni. Við verðum að sjá til hvað gerist næstu tvo daga en þá skýrist hverjir verði mögulega leikfærir eftir meiðsli og kóvid," sagði Benítez.

„Mitt fyrsta verk er að hafa ellefu menn klára, sem geta spilað sínar réttu stöður gegn Burnley. Það  verður ekki einfalt því við erum með níu útispilara og þrjá markverði eins og staðan er núna," sagði Spánverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert