Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, vill að fimm skiptingar verði leyfðar í ensku úrvalsdeildinni í stað þriggja.
Fimm skiptingar voru leyfðar fyrst um sinn þegar deildin fór af stað eftir langt hlé vegna kórónuverunnar á síðasta ári og enn er leyfilegt að gera fimm skiptingar í öðrum stærstu deildum Evrópu.
„Það var rétt ákvörðun að leyfa fimm skiptingar eftir hléið og nú erum við á svipuðum stað og fyrir einu og hálfu ári. Þess vegna ætti þetta að vera eins og fyrir einu og hálfu ári.
Flestir leikmenn eru sammála, en enska deildin er sú eina sem leyfir ekki fimm skiptingar. Leikjaálagið er mikið og það myndi hjálpa að hafa fimm skiptingar,“ sagði Rangnick á blaðamannafundi í dag.