Góðar fréttir fyrir Chelsea

Hakim Ziyech verður ekki með í Afríkukeppninni.
Hakim Ziyech verður ekki með í Afríkukeppninni. AFP

Knattspyrnumaðurinn Hakim Ziyech leikur ekki með landsliði Marokkós á Afríkumótinu í janúar. Ziyech er einn besti leikmaður Marokkós en samband hans og Vahids Halilhodzic landsliðsþjálfara er ekki gott.

Halilhodzic gagnrýndi Ziyech harðlega á dögunum og sagði hann ekki nenna að æfa. Þá sakaði hann leikmanninn um að gera sér upp meiðsli til að sleppa við landsleiki.

Ziyech hefur áður lent upp á kant við landsliðsþjálfara Marokkós en hann lék ekki á Afríkumótinu árið 2017 eftir rifrildi við Herve Renard, þáverandi þjálfara.

Sóknarmaðurinn verður því til taks fyrir Chelsea í janúar á meðan önnur lið missa sterka leikmenn á Afríkumótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert