Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City á Englandi, segir að leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar ættu að íhuga verkfall vegna of mikil leikjaálags um hátíðarnar, sérstaklega á meðan margir leikmenn eru fjarverandi vegna kóvidsmita.
Leikjum Liverpool og Leeds og Wolves og Watford, sem áttu að fara fram annan í jólum, var frestað í gær vegna smita í herbúðum Watford og Leeds. Eru leikirnir tveir af fjölmörgum leikjum sem hefur verið frestað á síðustu vikum vegna smita.
Leikjaálagið um hátíðarnar er mikið og bætir fjarvera leikmanna vegna kórónuveirunnar gráu ofan á svart. „Ættu leikmenn og knattspyrnustjórar að fara í verkfall saman? Við leysum þetta ekki með orðum. Peningar eru mikilvægari en heilsa leikmanna. Af hverju erum við ekki með fimm skiptingar t.d.?“ spurði Guardiola á blaðamannafundi í gær.
„Ég held að leikmenn vilji ekki verkfall því þeir vilja spila fótbolta. Við viljum halda áfram en eitthvað verður að breytast,“ bætti Spánverjinn við.