Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, hefur verið valinn í landslið Fílabeinsstrandarinnar fyrir Afríkukeppnina í fótbolta í næsta mánuði.
Missir hann því af leikjum Palace í ensku úrvalsdeildinni, en Zaha er af mörgum talinn besti leikmaður liðsins.
Zaha var ekki í landsliðshópi Fílabeinsstrandarinnar í nóvember og landsliðsþjálfarinn Patrice Beaumelle sagði Zaha vera að íhuga framtíð sína hjá landsliðinu. Zaha vísaði þeim ummælum á bug á Instagram og sagði það ávallt heiður að leika fyrir Fílabeinsströndina.
Fílabeinsströndin er í E-riðli mótsins með Alsír, Síerra Leóne og Miðbaugs-Gíneu.