Þrír frá City og tveir frá Liverpool

Manchester City á flesta fulltrúa í liðinu.
Manchester City á flesta fulltrúa í liðinu. AFP

Vefmiðilinn Goal.com birti í dag lista yfir lið fyrri hluta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Englandsmeistarar Manchester City eiga flesta fulltrúa í liðinu eða þrjá á meðan tveir leikmenn Liverpool eru í liðinu. Þá eiga sex önnur lið fulltrúa í liðinu.

Lið fyrri hluta ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta að mati Goal:

Markvörður: Aaron Ramsdale (Arsenal)

Aaron Ramsdale hefur komið mörgum á óvart.
Aaron Ramsdale hefur komið mörgum á óvart. AFP

Flestir voru sammála um að Aaron Ramsdale væru ekki sérlega góð kaup hjá Arsenal en félagið reiddi fram 24 milljónir punda fyrir markvörðinn. Fékk hann 130 mörk á sig á tveimur tímabilum með Bournemouth og Sheffield United áður en leiðin lá til Arsenal.

Hjá Arsenal hefur hann hins vegar slegið í gegn með glæsilegum markvörslum. Þá er hann snöggur að koma boltanum fram og er orðinn leiðtogi.

Hægri bakvörður: Trent Alexander Arnold (Liverpool)

Trent Alexander-Arnold hefur verið magnaður.
Trent Alexander-Arnold hefur verið magnaður. AFP

Það er ekki annað hægt en að velja Alexander-Arnold. Hann er búinn að leggja upp átta mörk á tímabilinu og skoraði stórglæsilegt mark á móti Newcastle í desember. Hann er skarpur leikmaður og skapar mikið.

Miðvörður: Rúben Dias (Manchester City)

Ruben Dias hefur verið ótrúlegur fyrir City.
Ruben Dias hefur verið ótrúlegur fyrir City. AFP

Rúben Dias var valinn besti leikmaður síðustu leiktíðar og hann er að gera svipaða hluti á þessari leiktíð. City hefur aðeins fengið níu mörk á sig og Dias er búinn að vera í byrjunarliðinu í 16 af 18 leikjum.

Miðvörður: Antonio Rüdiger (Chelsea)

Antonio Rüdiger er búinn að spila virkilega vel með Chelsea.
Antonio Rüdiger er búinn að spila virkilega vel með Chelsea. AFP

Chelsea hefur varist töluvert betur á þessari leiktíð en þeirri síðustu og Rüdiger er leiðtoginn í vörninni. Hann er orðinn einn besti varnarmaður deildarinnar og þá er hann einnig orðinn skæður í sókninni og náði t.d. í tvö víti á móti Leeds.

Vinstri bakvörður: João Cancelo (Manchester City)

João Cancelo hefur verið einn besti leikmaður City til þessa.
João Cancelo hefur verið einn besti leikmaður City til þessa. AFP

João Cancelo er búinn að vera óstöðvandi á tímabilinu. Í fjarveru Kevins De Bruyne á miðjunni kemur Cancelo sér hvað eftir annað í góðar stöður og skapar færi. Portúgalinn er búinn að gefa 1.407 sendingar á tímabilinu, fleiri en nokkur annar leikmaður. Þá er hann einnig góður í vörninni.

Miðja: Bernardo Silva (Manchester City)

Bernardo Silva skorar gegn Watford.
Bernardo Silva skorar gegn Watford. AFP

Besti leikmaður deildarinnar sem heitir ekki Mo Salah. Er mikilvæg tenging varnar og sóknar hjá City og búinn að skora sjö mörk á leiktíðinni. Algjör lykilmaður í sóknarleiknum og stýrir ferðinni í leikjum meistaranna.

Miðja: Declan Rice (West Ham)

Declan Rice gæti farið í stærra félag.
Declan Rice gæti farið í stærra félag. AFP

Glæsilegt tímabil hjá West Ham til þessa væri ekki mögulegt ef væri ekki fyrir akkerið á miðjunni. Er í heimsklassa og góður á báðum endum vallarins. Hann verður bara betri og betri og það er stutt í að bestu félög heims fari að bjóða í hann. Einn besti miðjumaður heims í dag.

Miðja: Conor Gallagher (Crystal Palace)

Conor Gallagher hefur komið mörgum á óvart.
Conor Gallagher hefur komið mörgum á óvart. AFP

Lánsmaður frá Chelsea sem hefur vart stigið feilspor. Búinn að skora sex mörk og gefa þrjár stoðsendingar, þrátt fyrir að þurfa að sinna varnarleiknum líka. Er aðeins 21 árs og algjör vél á miðjunni í báðum vítateigum. Ætti að vera í aðalliði Chelsea á næstu leiktíð.

Sókn: Mo Salah (Liverpool)

Mo Salah hefur átt ótrúlegt tímabil.
Mo Salah hefur átt ótrúlegt tímabil. AFP

Það þarf varla að útskýra þetta val. Það áttu fáir von á að Salah gæti toppað 32 marka tímabilið sitt 2017/18 en hann er á góðri leið með það, enda búinn að skora 15 mörk og leggja upp níu á tæpu hálfu tímabili. Hann er að spila eins og Lionel Messi, leikandi sér að vörn andstæðinganna og skora ótrúleg mörk.

Sókn: Raphinha (Leeds)

Raphinha hefur komið Leeds margoft til bjargar.
Raphinha hefur komið Leeds margoft til bjargar. AFP

Tímabilið hefur verið erfitt hjá Leeds. Meiðsli hafa herjað á liðið og það hefur verið í basli. Baslið væri hins vegar töluvert meira ef Raphinha væri ekki að ná í stig. Hann er að gera svipaða hluti með Leeds og Jack Grealish gerði með Aston Villa. Skorar, leggur upp og vinnur leiki fyrir liðið.

Sókn: Emmanuel Dennis (Watford)

Emmanuel Dennis er búinn að vera besti leikmaður Watford.
Emmanuel Dennis er búinn að vera besti leikmaður Watford. AFP

Hvar væri Watford án hans? Dennis er búinn að skora sjö mörk og leggja upp fimm til viðbótar. Hann er í fjórða sæti allra í deildinni þegar kemur að mörkum og stoðsendingum. Er langstærsta ástæða þess að Watford er ekki langneðst í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert