Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, og Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, eru sammála um að aðeins ætti að leika einn leik í undanúrslitum enska deildabikarsins.
Leikið er heima og að heiman í undanúrslitum keppninnar en vegna mikils leikjaálags og fjölda kóvidsmita vilja stjórarnir aðeins einn leik í stað tveggja. Liverpool mætir Arsenal í undanúrslitum og Tottenham og Chelsea eigast við.
„Ef ég hefði val myndi ég frekar spila einn leik, sérstaklega þegar staðan er svona. En við verðum að bera virðingu fyrir reglunum,“ sagði Conte við Sky eftir að Tottenham sló West Ham úr leik í átta liða úrslitum.
Klopp tók í sama streng. „Það væri betra að spila bara einn leik, en það sem ég segi er ekki mikilvægt. Ef það eru tveir leikir, þá eru tveir leikir. Ég hef talað um heilsu leikmanna í sex ár, eða jafnvel lengur. Ég myndi tala oftar um það, en það hjálpar ekki,“ sagði Þjóðverjinn við sama miðil.