Enska knattspyrnufélagið Newcastle hefur mikinn áhuga á að semja við nígeríska framherjann Odion Ighalo í janúar. Ighalo er sem stendur á mála hjá Al Shabab í Sádi-Arabíu.
Ighalo er markahæstur í efstu deild Sádi-Arabíu með níu mörk á tímabilinu. Hann lék með Manchester United frá janúar 2020 til janúar 2021 og skoraði fimm mörk í 23 leikjum.
Ighalo lék með Watford frá 2014 til 2017 og skoraði þá 40 mörk í 100 leikjum.
Newcastle er ríkasta félag heims í dag eftir að Mohammed bin Salman, krónprinsinn í Sádi-Arabíu, keypti félagið á dögunum fyrir 300 milljónir punda. Liðið er hins vegar í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá öruggu sæti.