Eins og að tala við vegg

Antonio Conte var ekki skemmt.
Antonio Conte var ekki skemmt. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham á Englandi, var ekki hrifinn af fundi sem forráðamenn, fyrirliðar og knattspyrnustjórar ensku úrvalsdeildarinnar héldu í vikunni.

Umræðuefni fundarins var ástandið sem hefur skapast í deildinni vegna kórónuveirunnar og mikils leikjaálags. Leikið er þétt í ensku úrvalsdeildinni um hátíðarnar á meðan margir leikmenn eru frá vegna kórónuveirusmita eða meiðsla. Álagið á leikfæra leikmenn er því mikið.

Þrettán leikjum deildarinnar hefur verið frestað á síðustu vikum en 90 manns innan hennar greindust með veiruna í síðustu viku.

„Þetta var tímaeyðsla og mér leið eins og ég væri að tala við vegg,“ sagði Conte á blaðamannafundi. „Einhverjir stjórar reyndu að útskýra mál sitt en það var greinilega búið að ákveða hvernig fundurinn færi áður en hann var haldinn,“ bætti Ítalinn við.

Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, tók í svipaðan streng á sínum blaðamannafundi. „Þegar þú ert að funda með 20 knattspyrnustjórum er erfitt að koma þínu áliti á framfæri. Þegar fundurinn var búinn var erfitt að átta sig á hverju hann skilaði,“ sagði Frakkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert