Enska knattspyrnufélagið Newcastle hefur mikinn áhuga á að fá hollenska miðvörðinn Sven Botman til félagsins. Botman leikur með Frakklandsmeisturum Lille.
Botman, sem er 21 árs, hefur verið í herbúðum Lille frá því á síðasta ári en hann er uppalinn með Ajax og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Hollands. Hann hefur skorað eitt mark í 46 leikjum með Lille í efstu deild Frakklands.
Krónprins Sádi-Arabíu festi kaup á Newcastle á dögunum og er félagið orðið það ríkasta í heiminum. Stefnan er því sett á að styrkja liðið í janúar en Newcastle er í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni, þremur stigum frá öruggu sæti.
Kieran Trippier, bakvörður Atlético Madrid og enska landsliðsins, hefur einnig verið orðaður við Newcastle.