Jack Grealish, fyrsti 100 milljón punda maðurinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, hefur ekki slegið í gegn hjá Manchester City eftir að félagið greiddi Aston Villa metfé fyrir þjónustu hans.
Grealish hefur skorað eitt mark og lagt upp tvö í tólf leikjum með City, en hann lék ekki gegn Newcastle í síðasta leik þar sem hann var í agabanni eftir að hafa farið út á lífið í kjölfar 7:0-sigursins á Leeds fyrr í mánuðinum.
Enski landsliðsmaðurinn viðurkennir að það hafi gengið verr að aðlagast Manchester-félaginu en hann átti von á.
„Þetta hefur verið allt í lagi en ég á mjög mikið inni. Þetta er búið að vera miklu erfiðara en ég bjóst við. Ég er enn að læra og aðlagast. Ég hef heyrt að það taki suma heilt ár að aðlagast liðinu og kannski á það við um mig,“ sagði Grealish við Sky Sports.
„Kröfurnar eru miklar og liðinu hefur gengið ótrúlega vel. Það er svolítið klikkaður veruleiki. Fólk er fljótt að velta verðmiðanum fyrir sér þegar illa gengur. Það eru hins vegar forréttindi að félagið skuli hafa haft svona mikla trú á mér og eytt svona miklum peningum til að fá mig,“ bætti Grealish við.