Chelsea fór upp í 41 stig og upp að hlið Liverpool í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 3:1-útisigri á Aston Villa í kvöld.
Aston Villa komst yfir þegar Reece James skoraði sjálfsmark. Matt Targett átti þá sendingu fyrir markið og James skóflaði boltanum yfir Edouard Mendy í marki Chelsea og í netið.
Sex mínútum síðar var staðan orðin 1:1 þegar Jorginho skoraði af öryggi úr víti og var staðan í hálfleik 1:1.
Romelu Lukaku kom inn á sem varamaður í hálfleik og hann kom Chelsea yfir á 56. mínútu með skallamarki. Lukaku var aftur á ferðinni í uppbótartíma er hann náði í víti. Aftur fór Jorginho á punktinn og aftur skoraði hann af öryggi og gulltryggði sigur Chelsea.