Leik Leeds United og Aston Villa sem átti að fara fram á þriðjudag hefur verið frestað vegna fjölda kórónuveirusmita innan herbúða Leeds.
Þegar var búið að fresta leik liðsins sem átti að fara fram í hádeginu í dag gegn Liverpool.
Engin ný smit hafa komið upp en þeir leikmenn sem höfðu þegar greinst smitaðir eru enn í einangrun og geta því ekki spilað eftir tvo daga.
Leeds greindi frá þessu í tilkynningu og bætti við að af þessum sökum væru enn ekki nægilega margir leikfærir aðalliðsleikmenn í leikmannahópnum.
Reglur ensku úrvalsdeildarinnar kveða á um að ef lið er með 13 útileikmenn úr aðalliðinu ásamt einum markverði skuli leikur þess fara fram. Féllst deildin á þær skýringar Leeds að liðið gæti ekki enn uppfyllt þessar kröfur á þriðjudaginn.
Samtals hefur 14 leikjum verið frestað í ensku úrvalsdeildinni í desember vegna kórónuveirusmita innan herbúða fjölda félaga.