Ef þeir sex leikir sem eftir er á dagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag, á öðrum degi jóla, verða enn til umræðu árið 2079, eftir 58 ár, gætu þeir jafnast á við það sem gerðist á þessum degi fyrir 58 árum.
Á öðrum degi jóla árið 1963 opnuðust flóðgáttirnar í deildinni svo um munaði, og hefur annað eins markaregn í deildinni aldrei verið leikið eftir. Tíu leikir voru á dagskrá, í þeim voru skoruð 66 mörk og eitt lið skoraði tíu mörk og annað átta.
Rennum yfir úrslitin 26. desember 1963:
Blackpool – Chelsea 1:5
Burnley – Manchester United 6:1
Fulham – Ipswich 10:1
Leicester – Everton 2:0
Liverpool – Stoke 6:1
Nottingham Forest – Sheffield United 3:3
Sheffield Wednesday – Bolton 3:0
West Bromwich – Tottenham 4:4
West Ham – Blackburn 2:8
Wolves – Aston Villa 3:3
Einu liðin sem léku ekki þennan dag voru Birmingham og Arsenal en 22 lið skipuðu efstu deild á þessum árum, 1. deildina eins og hún hét til 1992.
Liverpool varð meistari um vorið í fyrsta skipti og var eina af liðunum sem enduðu í fjórum efstu sætunum sem vann leik þennan mikla markadag. Manchester United og Everton, sem urðu í öðru og þriðja sæti, töpuðu og Tottenham, sem varð fjórða, gerði jafntefli.
West Ham, sem fékk slæman skell gegn Blackburn, endaði í 14. sæti en varð bikarmeistari um vorið.
Jimmy Greaves, sem lést fyrir skömmu, varð markakóngur deildarinnar þennan vetur með 35 mörk fyrir Tottenham.
Ipswich, sem steinlá 10:1 gegn Fulham í London, varð neðst um vorið og féll ásamt Bolton. Þess má geta að aðeins tveimur árum áður, 1961-62, varð Ipswich enskur meistari í fyrsta og eina skiptið.