Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, telur að enska úrvalsdeildin ætti að innleiða fimm leyfilegar skiptingar líkt og flestar aðrar stærstu deildir Evrópu styðjast við.
Kórónuveirufaraldurinn herjar nú illa á Bretlandseyjar og eru félög í ensku úrvalsdeildinni þar síst undanskilin enda hefur þurft að fresta 14 leikjum í deildinni í desember vegna fjölda smita innan herbúða félaganna.
„Hjá okkur eru aðstæðurnar þær sömu og hjá öllum öðrum. Við höfum áhyggjur því við erum ekki bara knattspyrnumenn og -þjálfarar, við erum einnig feður og eigum fjölskyldur. Við höfum því áhyggjur og efasemdir og erum óttaslegnir.
Við erum samt sem áður í þeirri forréttindastöðu að sinna störfum okkar og gera það sem við elskum mest þannig að þetta er sitt lítið af hvoru. Ég er mjög hreykinn af því hvernig liðið hefur tekið þessu,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi í gær.
Chelsea biðlaði til deildarinnar að fresta leik þess gegn Wolves fyrir sléttri viku eftir að fjöldi smita kom upp hjá Evrópumeisturunum en þeirri beiðni var hafnað þar sem nægilega margir leikmenn aðalliðsins voru leikfærir á leikdegi.
Staðan er betri hjá Chelsea í dag. „Þið vitið það vel að aðstæðurnar voru allt öðruvísi þegar við komum til Wolverhampton þegar sjö leikmenn höfðu greinst jákvæðir á þremur dögum.
Okkur fannst sem við værum að upplifa mikla útbreiðslu veirunnar og vildum fá smá tíma til þess að fást andlega við hana og róa liðið niður. Við fengum það ekki og lifðum með því. Við reyndum að styðja eins vel við bakið á liðinu og við mögulega gátum,“ sagði hann.
Vegna þessa aukna álags sem hefur komið til vegna fjölda smita tekur Tuchel í sama streng og Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Manchester United, og kallar eftir fimm skiptingum í stað þriggja eins og eru leyfðar í deildinni í dag.
„Við þetta tilefni get ég sagt að ég myndi mjög gjarna vilja fá fimm skiptingar því sá fjöldi var innleiddur til þess að vernda leikmennina þegar kórónuveiran fór að gera vart við sig og gerði lífið erfiðara.
Ég tel að ástandið sé mjög alvarlegt og mjög krefjandi þannig að ef við ákveðum að halda áfram að spila ættum við að minnsta kosti að eiga möguleika á fimm skiptingum svo okkur sé unnt að stýra álaginu betur.“