Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, hefur greinst með kórónuveiruna og verður því ekki á hliðarlínunni þegar liðið heimsækir nágranna sína í Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Nokkurrar óvissu hafði gætt um hvort leikurinn myndi fara fram vegna fjölda smita á meðal leikmanna og starfsfólks Palace en á samfélagsmiðlum beggja liða hefur verið staðfest að leikurinn fari fram.
Vieira er nú í einangrun og eru að minnsta kosti fjórir leikmenn Palace sömuleiðis í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna.
Forráðamenn Palace bjuggust allt eins við því að leiknum, sem hefst klukkan 15 í dag, yrði frestað vegna smitanna og báðu í morgun um að það yrði gert en enska úrvalsdeildin hafnaði þeirri beiðni þar sem nægilega margir leikmenn liðsins eru leikfærir.
Osian Roberts, aðstoðarþjálfari Palace, mun stýra liðinu í fjarveru Vieira.