„Höfum allir verið rúmliggjandi í tíu daga“

Thomas Tuchel (t.h.) ásamt Jorginho eftir leikinn í gærkvöldi.
Thomas Tuchel (t.h.) ásamt Jorginho eftir leikinn í gærkvöldi. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, gagnrýnir ensku úrvalsdeildina harðlega fyrir að láta liðið spila mikinn fjölda leikja þrátt fyrir að það hafi orðið fyrir barðinu á kórónuveirunni að undanförnu.

Alls hefur 15 leikjum verið frestað í deildinni í desember vegna faraldursins en Chelsea hefur spilað átta leiki í mánuðinum til þessa og fékk ekki leik sínum gegn Wolves í síðustu viku frestað þar sem nægilega margir leikmenn voru leikfærir á leikdag.

„Svona er þetta en þetta getur ekki talist rétta leiðin. Þetta er ekki sanngjarnt. Við höfum allir verið rúmliggjandi í tíu daga og spilum svo gegn liðum sem geta undirbúið sig eftir frestaða leiki og hafa til þess heila viku.

Við erum látnir spila öllum stundum, jafnvel þótt við séum með Covid. Við erum með ný meiðsli og þetta mun ekki hætta. Fólk á skrifstofunni tekur þessar ákvarðanir,“ sagði Tuchel eftir sterkan 3:1-útisigur gegn Aston Villa í deildinni í gærkvöldi.

Thiago Silva og N'Golo Kanté meiddust í leiknum í gær, auk þess sem Timo Werner og Kai Havertz voru enn fjarverandi eftir að hafa greinst með veiruna. Romelu Lukaku og Callum Hudson-Odoi voru nýverið smitaðir en spiluðu báðir í gær.

„Við eigum í vandræðum, við erum að setja leikmenn okkar undir mikla pressu. Ég ber mestu mögulega virðingu fyrir því hvað leikmennirnir gerðu í kvöld. Við gerum breytingar vegna meiðsla, við gerum ekki breytingar af taktískum ástæðum lengur.

Ég er mjög hreykinn af leikmönnum mínum en hef miklar áhyggjur. Kannski gerðum við stór mistök með því að láta leikmenn sem voru smitaðir af kórónuveirunni og hafa aðeins tekið þátt í einni eða tveimur æfingum spila. En augljóslega lét enska úrvalsdeildin okkur spila og því spilum við,“ bætti Tuchel við.

Hann ítrekaði þá ósk sína að enska úrvalsdeildin innleiddi fimm skiptingar en telur þó engar líkur á að það verði gert.

„Við erum ekki að vernda leikmenn því við erum eina deildin sem er ekki með fimm skiptingar,“ sagði Tuchel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert