Liðið hefur æft einu sinni á tveimur vikum

Claudio Ranieri fylgist með sínum mönnum í leiknum við Brentford …
Claudio Ranieri fylgist með sínum mönnum í leiknum við Brentford 10. desember en þá lék Watford síðast. AFP

Claudio Ranieri knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Watford segir að lið sitt hafi nánast ekkert getað æft undanfarnar tvær vikur en það spilar á morgun sinn fyrsta leik í sautján daga.

Watford spilaði síðast gegn Brentford 10. desember en síðan hefur leikjum liðsins við Burnley, Crystal Palace og Wolves verið frestað vegna kórónuveirusmita.

„Það hefur ekki verið auðvelt að skipuleggja æfingar að undanförnu. Í dag náðum við í fyrsta skipti í meira en tvær vikur að vera með allan hópinn saman á æfingu. Þetta er slæmur tími því leikmennirnir geta ekki æft almennilega og ég vona að það kosti okkur ekki meiðsli. Við vitum að þegar menn eru ekki í æfingu er erfitt að spila þegar langt er liðið á leikina, en þannig er þetta,“ sagði Ranieri á fréttamannafundi í dag.

Mótherjarnir í West Ham hafa hinsvegar spilað þrjá leiki á einni viku. „Vonandi verður það okkur í hag, þar sem við spiluðum ekki, en á móti höfum við bara æft einu sinni,“ sagði Ítalinn reyndi sem tók við Watford í október.

Hann kvaðst geta tekið undir með kollegum sínum hjá Liverpool og Manchester United, Jürgen Klopp og Ralf Rangnick, sem hafa sagt að það verði erfitt að kaupa leikmenn sem hafi ekki verið bólusettir við kórónuveirunni. Klopp sagði á dögunum að staða viðkomandi leikmanns varðandi bólusetningu myndi hafa áhrif á ákvörðun félagsins um kaup.

„Við verðum að hugleiða þetta. Ef þú ert bólusettur færðu bara mjög væg einkenni af kórónuveirunni. Ef þú ert ekki bólusettur þarftu að vera lengi heima án þess að æfa og það er vel skiljanlegt að menn vilji frekar þá sem eru bólusettir,“ sagði Ranieri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert