United tapaði stigum í Newcastle

Alex Telles fer framhjá Ryan Fraser í kvöld.
Alex Telles fer framhjá Ryan Fraser í kvöld. AFP

Manchester United og Newcastle skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Newcastle komst verðskuldað yfir í fyrri hálfleik en Manchester United jafnaði í þeim seinni. 

Newacstle var töluvert betra liðið gegn daufum Manchester United-mönnum í fyrri hálfleik. Heimamenn komust yfir á 7. mínútu er Allan Saint-Maximin skoraði með föstu skoti í bláhornið úr teignum.

Gestirnir frá Manchester voru töluvert meira með boltann eftir markið, en gekk mjög illa að skapa sér færi og hafði Martin Dúbravka lítið að gera í markinu. Hinum megin skapaðist alltaf hætta þegar Saint-Maximin var með boltann. Mörkin urðu hinsvegar ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, gerði tvöfalda breytingu í hálfleik. Þeir Jadon Sancho og Edinson Cavani komu inn á og það átti eftir að skila sér.

Cavani jafnaði á 71. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Diogo Dalot. Það sem eftir lifði leiks komst Newcastle hinsvegar næst því að skora sigurmarkið. Á örfáum sekúndum átti Jacob Murphy fyrst skot í stöngina og síðan Miguel Almirón hættulegt skot sem David De Gea varði glæsilega.

Mörkin urðu hinsvegar ekki fleiri og liðin skiptu því með sér stigunum. Manchester United er í sjöunda sæti deildarinnar með 28 stig en Newcastle er í 19. sæti með 11 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. 

Newcastle 1:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Það verða sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert