Leik Everton og Newcastle sem fram átti að fara í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á fimmtudagskvöldið hefur verið frestað.
Þetta var tilkynnt í kvöld á vef deildarinnar þar sem fram kemur að beiðni Newcastle hafi verið samþykkt. Félagið sé ekki með nægilega marga leikfæra leikmenn vegna kórónuveirusmita og meiðsla og því hafi þessi ákvörðun verið tekin, sem betur fer með smá fyrirvara fyrir þá sem ætluðu að sjá leikinn.
Ef lið eru með þrettán leikfæra útispilara og einn markvörð að auki er leikjum í deildinni ekki frestað.
Newcastle var með nítján leikmenn á skýrslu í gærkvöld þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Manchester United þannig að á einum sólarhring hefur fækkað um sex nothæfa leikmenn.