Hafði tilfinningu fyrir vítinu – bara Danir sem verja frá Salah

Kasper Schmeichel ver í leiknum gegn Liverpool í kvöld.
Kasper Schmeichel ver í leiknum gegn Liverpool í kvöld. AFP

Kasper Schmeichel var hetja Leicester í kvöld þegar hann varði vítaspyrnu frá Mohamed Salah í sigrinum gegn Liverpool, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. 

Danski markvörðurinn var spurður eftir leikinn hvort hann hefði verið búinn að grandskoða vítaspyrnurnar hjá Salah sem hafði skorað úr fimmtán slíkum í röð í deildinni og ekki mistekist í rúm fjögur ár.

„Nei, í raun ekki. Ég fékk ákveðna tilfinningu fyrir því hvar hann myndi skjóta og fylgdi henni. Síðast þegar ég varði víti hérna á King Power var skorað úr frákastinu. Stundum þarf maður að hafa heppnina með sér,“ sagði Schmeichel, en Salah fylgdi á eftir þegar Schmeichel varði og skallaði í þverslána og út.

Þannig vill til að báðir markverðirnir sem hafa varið vítaspyrnu frá Salah eru danskir. Hinn sem gerði það í október 2017 var Jonas Lössl, þáverandi markvörður Huddersfield, sem nú berst um stöðu aðalmarkvarðar Midtjylland í Danmörku við íslenska landsliðsmarkvörðinn Elías Rafn Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert