Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og núverandi spekingur á Sky Sports-sjónvarpsstöðinni, var allt annað en hrifinn af frammistöðu United gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.
Urðu lokatölur 1:1 þar sem varamaðurinn Edinson Cavani skoraði jöfnunarmark í seinni hálfleik. Fram að því hafði United alls ekki spilað vel, gegn liði sem hefur aðeins unnið einn leik á öllu tímabilinu.
„Þeir voru undir á öllum sviðum fótboltans. Þetta var hræðileg frammistaða. Það er ekki einn einasti hlutur sem þeir gerðu vel sem lið. Það gat enginn farið inn í búningsklefa og verið sáttur við sig,“ sagði Neville eftir leik.
„Þetta eru vælukjóar. Sjáið hvernig þeir voru á vellinum, hendur á lofti og kvartandi yfir öllu. Þeir létu reka síðasta stjóra og þeir láta reka marga stjóra til viðbótar ef þeir halda svona áfram,“ bætti fyrrverandi bakvörðurinn við.