Kallaði leikmenn United vælukjóa

Cristiano Ronaldo kvartar í gær.
Cristiano Ronaldo kvartar í gær. AFP

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og núverandi spekingur á Sky Sports-sjónvarpsstöðinni, var allt annað en hrifinn af frammistöðu United gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Urðu lokatölur 1:1 þar sem varamaðurinn Edinson Cavani skoraði jöfnunarmark í seinni hálfleik. Fram að því hafði United alls ekki spilað vel, gegn liði sem hefur aðeins unnið einn leik á öllu tímabilinu.

„Þeir voru undir á öllum sviðum fótboltans. Þetta var hræðileg frammistaða. Það er ekki einn einasti hlutur sem þeir gerðu vel sem lið. Það gat enginn farið inn í búningsklefa og verið sáttur við sig,“ sagði Neville eftir leik.

„Þetta eru vælukjóar. Sjáið hvernig þeir voru á vellinum, hendur á lofti og kvartandi yfir öllu. Þeir létu reka síðasta stjóra og þeir láta reka marga stjóra til viðbótar ef þeir halda svona áfram,“ bætti fyrrverandi bakvörðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert