Leicester vann sterkan 1:0-heimasigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Liverpool varð því af stigum í toppbaráttunni en liðið er með 41 stig, sex stigum á eftir toppliði Manchester City. Leicester er í níunda sæti með 25 stig.
Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og á 14. mínútu náði Mo Salah í víti þegar Wilfried Ndidi tók hann niður innan teigs. Salah fór sjálfur á punktinn en Kasper Schmeichel í marki Leicester varði frá honum. Boltinn barst aftur á Salah en þá skallaði hann í slána og Leicester slapp með skrekkinn.
Diogo Jota og Salah fengu svo hvor sitt fína færið um miðjan hálfleikinn en í bæði skiptin varði Schmeichel vel og var danski markvörðurinn helsta ástæða þess að staðan var markalaus í leikhléi.
Liverpool fékk annað úrvalsfæri á 55. mínútu þegar Sadio Mané slapp einn í gegn eftir sendingu frá Diogo Jota en Senegalinn skaut yfir, einn gegn Schmeichel.
Í kjölfarið kom Ademola Lookman inn á hjá Leicester og það tók hann aðeins fjórar mínútur að skora sigurmarkið þegar hann fékk boltann frá Kiernan Dewsbury-Hall, brunaði inn í teiginn og skoraði með föstu skoti á nærstöngina.
Diego Jota fékk fínt tækifæri til að jafna á 82. mínútu en hann skallaði rétt framhjá eftir horn. Liverpool sótti án afláts út leiktímann en Leicester varðist hetjulega og tókst að halda hreinu og sigla sigri í höfn.