Sevilla vill leikmann United að láni

Anthony Martial hefur lítið fengið að spila á leiktíðinni.
Anthony Martial hefur lítið fengið að spila á leiktíðinni. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Sevilla hefur lagt fram lánstilboð í franska sóknarmanninn Anthony Martial, leikmann Manchester United, út þetta tímabil.

Martial hefur lítið fengið að spila á leiktíðinni og vill yfirgefa enska félagið. Samkvæmt Sky hefur Sevilla ekki forkaupsrétt á Martial eftir lánssamninginn.

Barcelona og Juventus hafa einnig sýnt áhuga en Martial hefur sjálfur mestan áhuga á að fara til Sevilla. Hann hefur skorað 79 mörk í 268 leikjum með United en er á eftir Cristiano Ronaldo, Jadon Sancho, Marcus Rashford, Edinson Cavani og Mason Greenwood í goggunarröðinni á Old Trafford.

„Hann útskýrði fyrir mér að hann hefði verið hjá United í sjö ár og nú væri tíminn til að breyta til og fara annað,“ sagði Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, við Sky eftir 1:1-jafnteflið við Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert