West Ham lyfti sér upp fyrir Tottenham og í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag með því að sigra Watford 4:1 á útivelli á meðan Tottenham gerði jafntefli við Southampton.
Watford byrjaði vel gegn West Ham því Emmanuel Dennis skoraði sitt áttunda mark í deildinni strax á 4. mínútu og kom Watford í 1:0.
Tomás Soucek og Said Benrahma svöruðu fyrir West Ham með tveimur mörkum á tveimur mínútum og staðan var 2:1 í hálfleik. Mark Noble skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 58. mínútu og West Ham var með leikinn í hendi sér eftir það. Nikola Vlasic kom inn á sem varamaður undir lokin og skoraði fjórða markið í uppbótartíma leiksins.
West Ham er nú með 31 stig í fimmta sætinu, fjórum stigum á eftir Arsenal sem er í fjórða sæti. Tottenham er með 30 stig í sjötta sæti.
James Ward-Prowse kom Southampton yfir gegn Tottenham á 25. mínútu en á 39. mínútu fékk Tottenham vítaspyrnu og Mohammed Salisu var rekinn af velli. Harry Kane jafnaði úr vítaspyrnunni, 1:1. Tíu leikmenn Southampton náðu að halda sínum hlut í seinni hálfleik og Tottenham tókst ekki að knýja fram sigur þrátt fyrir þunga pressu.
Southampton er nú í þrettánda sæti með 21 stig.
Crystal Palace vann afar öruggan sigur á Norwich, 3:0, þar sem mörkin komu öll í fyrri hálfleik. Odsonne Edourad skoraði úr vítaspyrnu á 8. mínútu og lagði síðan upp mörk fyrir Jean-Phillippe Mateta og Jeffrey Schlupp á lokamínútum fyrri hálfleiks.
Palace lyfti sér upp í 9. sæti deildarinnar með sigrinum og er með 23 stig. Norwich situr áfram á botni deildarinnar með 10 stig og hefur aðeins skorað átta mörk í fyrstu nítján leikjum sínum. Liðið hefur nú tapað fimm leikjum í röð og ekki skorað í þeim eitt einasta mark.