Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, setti inn áhugaverða færslu á Twitter þar sem hann gagnrýndi þá ákvörðun forráðamanna ensku úrvalsdeildarinnar og forráðamanna ensku B-deildarinnar að fresta leikjum í deildunum vegna kórónuveirunnar.
Kórónuveirufaraldurinn hefur sett stórt strik í reikninginn á Englandi í desembermánuði og hefur mörgum leikjum í deildinni verið frestað vegna smita í herbúðum félaganna í efstu deildum Englands.
„Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar og sérstaklega forráðamenn ensku B-deildarinnar verða að hætta að fresta leikjum nema í algjörum neyðartilfellum,“ skrifaði Neville á Twitter.
„Öll félögin eru með 40 til 50 leikmenn í sínum herbúðum ásamt unglingaliðum líka. Það er lítið mál að stilla upp varaliði í enska deildabikarnum og félögin hika ekki við það.
Hættum þessum frestunum og áfram með smjörið,“ bætti Neville við.