Brighton jafnaði í lokin gegn Chelsea

Danny Welbeck jafnar á síðustu stundu.
Danny Welbeck jafnar á síðustu stundu. AFP

Chelsea tapaði stigum í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið gerði jafntefli við Brighton á heimavelli í kvöld, 1:1. Danny Welbeck skoraði jöfnunarmark Brighton í uppbótartíma. 

Chelsea byrjaði af krafti og var töluvert sterkara liðið fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 27. mínútu en það gerði Romelu Lukaku með skalla eftir hornspyrnu frá Mason Mount.

Eftir markið var Brighton hins vegar töluvert betra liðið og komust Yves Bissouma og Adam Lallana báðir nálægt því að skora en Edouard Mendy í marki Chelsea varði í tvígang virkilega vel. Var staðan í hálfleik því 1:0, Chelsea í vil.

Brighton hélt áfram að sækja í seinni hálfleik og skapaði sér töluvert af færum. Neil Maupay átti skot rétt framhjá á 57. mínútu, örfáum mínútum eftir að Yves Bissouma átti hörkuskot að marki sem Mendy varði vel. Adam Lallana fékk svo gott færi í teignum á 65. mínútu en skaut rétt yfir mark Chelsea-manna.

Verðskuldað jöfnunarmark Brighton kom loks í uppbótartíma og það gerði varamaðurinn Danny Welbeck með skalla eftir fallega fyrirgjöf frá Marc Cucurella og þar við sat.

Chelsea 1:1 Brighton opna loka
90. mín. Mason Mount setur boltann í autt markið af löngu færi en þetta telur ekki þar sem hann er dæmdur brotlegur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert