City náði átta stiga forskoti

Leikmenn Manchester City fagna fyrsta marki leiksins.
Leikmenn Manchester City fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Manchester City

Manchester City er komið með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 1:0-útisigur á Brentford í kvöld. Phil Foden skoraði sigurmark City snemma leiks. 

Brentford byrjaði ágætlega og Shandon Baptiste og Yoane Wissa komust nálægt því að skora á fyrsta kortérinu. Fyrst varði Ederson og síðan Joao Cancelo á línu.

City refsaði því Phil Foden skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu er hann kláraði úr teignum eftir sendingu frá Kevin De Bruyne.

City var 80% með boltann eftir markið en tókst þó ekki að skapa sér mikið af góðum færum. Foden hélt hann væri að tvöfalda forskotið á 50. mínútu en hann var aðeins fyrir innan er hann skoraði með skalla og gilti markið því ekki.

Aymeric Laporte hélt svo að hann væri að gulltryggja sigurinn er hann skoraði með fallegum skalla undir lokin en aftur var mark dæmt af gestunum vegna rangstöðu. Það kom hins vegar ekki að sök því City fagnaði eins marks sigri.

Brentford 0:1 Man. City opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma. Fáum við dramatík í lokin?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert