Getum gleymt City ef við spilum svona

Jürgen Klopp nýtir stutt hlé á leiknum í Leicester til …
Jürgen Klopp nýtir stutt hlé á leiknum í Leicester til að reyna að brýna sína menn. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að ef lið sitt spili áfram eins og það gerði í tapleiknum gegn Leicester í gærkvöld þýði ekkert að hugsa um að reyna að elta Manchester City í baráttunni um enska meistaratitilinn.

Sex stig skilja liðin að og þar sem City spilar tvisvar áður en Chelsea og Liverpool mætast á sunnudag gæti forskot Englandsmeistaranna þá verið orðið tólf stig.

„Þeir eru með góða forystu og að auki eigum við og Chelsea að mætast. Það var ekki ætlunin að gefa City tækifæri til að stinga af en ef við spilum eins og í kvöld þýðir ekkert að hugsa um að elta City. En ef við spilum aftur okkar fótbolta sjáum við til. Ég get ekki útskýrt þessa frammistöðu í kvöld og aðalmálið hjá mér er að finna skýringu á henni, ekki velta City fyrir mér,“ sagði Klopp eftir leikinn.

Hann sagði að sigur Leicester hefði verið sanngjarn. „Við spiluðum mjög illa og þetta var verðskuldaður sigur hjá þeim. Þetta var skrýtinn leikur og við vorum bara ekki nógu góðir. Það var margt í okkar leik sem ég var óánægður með. Við hefðum átt að verjast betur. Við erum vanir að gera það og það er erfitt að átta sig á hvers vegna við gerðum það ekki. Það voru margir undir getu,“ sagði Klopp og neitaði að kenna Mohamed Salah um hvernig fór en vítaspyrna hans var varin af Kasper Schmeichel.

„Ég kenni ekki Mo um á nokkurn hátt. Hann er vanur að skora. Mo er hluti af liðinu, og liðið spilar vanalega betur en þetta. Við gerðum það ekki og töpuðum,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert