Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Leicester var að vonum ánægður með sigurinn á sínu gamla félagi, Liverpool, í ensku úrvalsdeildinni og þakkaði einum leikmanni sérstaklega fyrir frammistöðu sína.
Daninn Kasper Schmeichel varði nokkrum sinnum glæsilega í leiknum, meðal annars vítaspyrnu frá Mohamed Salah í fyrri hálfleik.
„Kasper Schmeichel er markvörður í fremstu röð, einn sá besti í Evrópu. Þarna er hann bestur, þegar við þurfum mest á honum að halda er hann tilbúinn. Við þurftum svona frammistöðu,“ sagði Rodgers við BBC eftir leikinn.
Rodgers kvaðst afar stoltur af sínu liði sem tveimur sólarhringum áður tapaði 6:3 fyrir Manchester City.
„Það er erfitt að lýsa þessu í orðum, eftir að hafa mætt Manchester City og Liverpool innan 48 klukkustunda. Þetta var svo sannarlega hetjuleg frammistaða. Við þurftum að verjast með kjafti og klóm en sýndum líka að við gætum spilað á þessu getustigi,“ sagði Rodgers en lið hans lyfti sér með sigrinum upp í níunda sæti deildarinnar.