Held ég muni aldrei spila fyrir Tottenham

Kylian Mbappé reiknar ekki með því að ganga til liðs …
Kylian Mbappé reiknar ekki með því að ganga til liðs við Tottenham í náinni framtíð. AFP

Kylian Mbappé, sóknarmaður knattspyrnuliðs París SG í Frakklandi, er á meðal eftirsóttustu leikmanna heims en samningur hans í frönsku höfuðborginni rennur út næsta sumar.

Frakkinn, sem er 23 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við Real Madríd en hann hefur ekki viljað framlengja samning sinn við París SG.

Þá eru stærstu félög Evrópu öll sögð áhugasöm um leikmanninn sem getur yfirgefið París SG á frjálsri sölu næsta sumar.

Bandaríski Hollywoodleikarinn Tom Holland, sem er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem kóngulóarmaðurinn í Marvel-myndunum frægu, reyndi að fá sóknarmanninn til að ganga til liðs við Tottenham á dögunum.

„Ég held að ég muni aldrei spila fyrir Tottenham,“ sagði Mbappé í samtali við CNN þegar hann ræddi atvikið með Holland.

„Holland reyndi að sannfæra mig en það gekk ekki alveg. Tottenham er frábær klúbbur og með frábæran stjóra sem getur gert góða hluti fyrir félagið,“ bætti Mbappé við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert