Klopp hefur enga afsökun

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í Leicester í gær.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í Leicester í gær. AFP

Alan Shearer, fyrrverandi fyrirliði Newcastle og sparkspekingur hjá Sky Sports, gagnrýndi Jürgen Klopp, stjóra Liverpool, eftir 0:1-tap liðsins gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Liverpool fór illa með færin sín á King Power-vellinum í Leicester og varði Kasper Schmeichel meðal annars vítaspyrnu frá Mohamed Salah í fyrri hálfleik.

Leikmenn Liverpool voru engu að síður ólíkir sjálfum sér í leiknum og eru nú sex stigum á eftir toppliði Manchester City sem er með 47 stig í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Liverpool fékk góða hvíld fyrir leikinn en Leicester fékk 48 klukkustundir til þess að undirbúa sig fyrir hann,“ sagði Shearer.

„Klopp hefur enga afsökun fyrir frammistöðu liðsins, sem var einfaldlega slök. Liverpool kom sér í vænlegar stöður en þeir voru slakir á síðasta þriðjungi vallarins. Nokkuð sem við erum ekki vanir að sjá.

Þeir eru vanir að spila af miklum krafti en það var allt annað upp á teningnum í gær. Þeir loka á mótherja sína og pressa hátt. Við sáum lítið af því og það vantaði alla ákefð í leik liðsins,“ bætti Shearer við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert