Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal hefur greinst með kórónuveiruna og það þýðir að hann missir af sannkölluðum stórleik liðsins á nýársdag.
Arsenal tekur þá á móti Englandsmeisturum og toppliði deildarinnar, Manchester City, en þar var Arteta einmitt aðstoðarmaður hjá Pep Guardiola áður en hann tók við liði Arsenal.
Þetta er einn áhugaverðasti leikur deildarinnar um jól og áramót en Arsenal hefur verið á mikilli siglingu frá því í september, eftir að liðið hafði byrjað tímabilið afar illa, og hefur komið sér vel fyrir í fjórða sæti deildarinnar. City er á enn meiri siglingu og er með sex stiga forskot fyrir leik gegn Brentford á útivelli í kvöld.
Arteta er kominn í einangrun og missir væntanlega af öðrum stórleik því Arsenal mætir Liverpool í fyrri leiknum í undanúrslitum deildabikarsins 6. janúar.