Jorginho, miðjumaðurinn öflugi hjá Chelsea og ítalska landsliðinu í knattspyrnu, hefur bæst í hóp þeirra sem gagnrýna Englendinga fyrir að leyfa ekki fimm innáskiptingar í úrvalsdeildinni.
FIFA heimilar fimm skiptingar samkvæmt bráðabirgðareglum sem settar voru vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, en aðildarlönd ákveða hvert fyrir sig hvort þau taka þær upp eða halda sig við hefðbundnu reglurnar um að skipta megi inn á þremur varamönnum í hvoru liði í leik.
„Þetta er mjög erfitt því við höfum engan tíma til að jafna okkur á milli leikja. Við þurfum að spila þriðja hvern dag og megum bara nota þrjá varamenn. Það er brjálæði að við skulum ekki mega nýta fimm skiptingar,“ sagði Jorginho við beIN Sports eftir leik Chelsea og Brighton í gærkvöld, sem endaði 1:1.
„Í mínum augum er þetta of mikið. Það verður að gera eitthvað, ef við höldum áfram svona munu fleiri og fleiri leikmenn meiðast, og þá gætu gæði leiksins dalað. Ég held að Englendingar ættu að skoða þetta vel,“ sagði Jorginho.