Antonio Conte knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur segir að það sé afar mikilvægt fyrir sig og félagið að hann fái liðsauka í janúarmánuði.
Conte tók við Tottenham í byrjun nóvember, eftir að Nuno Espirito Santo var sagt upp störfum, og hann sagði á fundi með fréttamönnum í dag að hann væri búinn að skoða stöðuna eftir að hafa unnið með leikmannahópnum í tvo mánuði.
„Nú bíð ég eftir fundi með stjórn félagsins. Fyrir mína parta er myndin orðin miklu skýrari en þegar ég kom. Ég bíð eftir fundinum til að geta sagt skoðun mína á leikmannahópnum og hverjar mínar hugmyndir eru. En ég sagði líka strax eftir tvær vikur í starfi að við yrðum að auka gæðin í hópnum. Þetta var ég kominn með á hreint eftir aðeins tíu daga.
Nú hef ég metið þá leikmenn sem ég tel mig geta notað. Hópurinn þarf styrkingu áður en farið verður að hugsa um að komast í Evrópukeppni. Þessi deild er svo gríðarlega sterk," sagði Antonio Conte sem stýrði Inter Mílanó til ítalska meistaratitilsins síðasta vetur en hætti störfum eftir tímabilið þegar honum sinnaðist við forráðamenn félagsins varðandi leikmannakaup.