Ekki verið rætt að styrkja hópinn

Ralf Rangnick var sáttur með lærisveina sína í kvöld.
Ralf Rangnick var sáttur með lærisveina sína í kvöld. AFP

„Þetta var gríðarlega erfiður leikur gegn líkamlega sterkum andstæðingi,“ sagði Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við Amazon Prime eftir 3:1-sigur liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester í kvöld.

United var afar sannfærandi í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, en það voru þeir Scott McTominay og Cristiano Ronaldo sem skoruðu mörk United í leiknum ásamt Ben Mee, fyrirliða Burnley, sem varð fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net.

„Mér fannst við sýna það í kvöld hversu öflugir við getum verið,“ sagði Rangnick.

„Við lögðum mikla vinnu í leikinn og uppskárum eftir því. Ég var mjög ánægður með kantmennina sem pressuðu stíft og eins framherjana, Cavani og Ronaldo.

Úrslitin eru góð og það er gott að skora þrjú mörk en ég er fyrst og fremst að horfa í það hvort liðið sé ekki að bæta sig leik frá leik. Við höfum leikið átta leiki í röð án taps sem er mjög jákvætt.

Ég einbeiti mér fyrst og fremst að því að þjálfa núverandi leikmenn liðsins og við erum með stóran og breiðan hóp. Það hefur ekki verið rætt neitt að styrkja hópinn sérstaklega í janúar,“ bætti Rangnick við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert