Langþráður leikur á Old Trafford

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley gegn West Ham …
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley gegn West Ham í vetur. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson og samherjar í Burnley spila loksins sinn fyrsta leik í átján daga í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld eftir að þremur síðustu leikjum þeirra hefur verið frestað.

Burnley sækir heim lið Manchester United en liðið spilaði síðast 12. desember og leikjum gegn Watford, Aston Villa og Everton var frestað vegna útbreiðslu kórónuveirusmita í liðunum.

Burnley er með flesta sína menn klára í slaginn, þar á meðal líklega Maxwel Cornet sem hefur slegið í gegn í vetur, en hann fékk kórónuveiruna auk þess að meiðast og er kominn af stað með liðinu á ný.

Hjá Manchester United vantar þrjá leikmenn í kvöld. Victor Lindelöf fékk kórónuveiruna og er ekki kominn af stað, auk þess sem verkir fyrir brjósti settu skrekk í hann og samherjana fyrr í þessum mánuði. Paul Pogba er áfram frá vegna meiðsla og Bruno Fernandes er í leikbanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert