Það er desember

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool.
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur litlar áhyggjur af stöðu liðsins í ensku úrvalsdeildinni eftir 0:1-tapið gegn Leicester í deildinni á King Power-vellinum í Leicester á þriðjudaginn síðasta.

Liverpool er nú með 41 stig í þriðja sæti deildarinnar, 9 stigum minna en topplið Manchester City, en Liverpool á leik til góða á City.

Tapið gegn Leicester var óvænt en leikmenn Liverpool  voru ólíkir sjálfum sér í leiknum þar sem Ademola Lookman skoraði sigurmarkið á 59. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

„Hvað get ég sagt?“ sagði van Dijk þegar hann var spurður út í titilvonir Liverpool á blaðamannafundi í gær.

„Það er desember og tímabilið er langt. Það getur allt gerst í þessu og við erum ekki að stressa okkur á stöðu hinna liðanna í deildinni.

Það er kórónuveirufaraldur og lið eru að ganga í gegnum meiðsli líka. Það getur ýmislegt breyst á löngu tímabili og við erum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfa,“ bætti van Dijk við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert