Einn heitasti framherji úrvalsdeildarinnar ekki á Afríkumótið

Emmanuel Dennis heldur kyrru fyrir á Englandi.
Emmanuel Dennis heldur kyrru fyrir á Englandi. AFP

Nígeríski sóknarmaðurinn Emmanuel Dennis mun ekki taka þátt á Afríkumótinu í Kamerún í janúar þar sem félagslið hans, Watford, hefur ákveðið að hleypa honum ekki á það.

Nígeríska knattspyrnusambandið var of seint að leggja fram beiðni til Watford um að fá að velja hann í landsliðshóp sinn og Watford það því í vald sett að ákveða hvort hann fari.

Enska félagið hefur ákveðið að neita Dennis um að fara á mótið og er það mikið áfall fyrir Nígeríu en vatn á myllu Watford, þar sem hann hefur farið á kostum á sínum fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Dennis er á meðal atkvæðamestu leikmanna deildarinnar en hann hefur komið að alls 13 mörkum í 16 leikjum til þessa. Hefur Dennis skorað átta mörk og lagt upp fimm til viðbótar.

Victor Osimhen, framherji Napoli á Ítalíu, mun einnig missa af Afríkumótinu eftir að hann greindist með kórónuveiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert