Öðrum leik frestað í ensku úrvalsdeildinni

Newcastle United hefur fengið öðrum leik sínum í röð frestað …
Newcastle United hefur fengið öðrum leik sínum í röð frestað í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Leik Southampton og Newcastle United sem fara átti að fara fram næstkomandi sunnudag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hefur verið frestað.

Fjöldi kórónuveirusmita ásamt meiðslum herja nú á Newcastle og gengust forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar við þeim skýringum að liðið sé ekki með nægilega marga leikfæra leikmenn.

Fresta þurfti leik Newcastle gegn Everton, sem átti að fara fram í deildinni í gærkvöldi, af sömu orsökum.

Samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar skal leikur fara fram ef 13 útispilarar og einn markvörður eru leikfærir á leikdag.

Alls var 16 leikjum í deildinni frestað í desember og þegar er búið að fresta tveimur í janúar, en fyrr í dag var tilkynnt að leik Leicester City og Norwich City sem átti að fara fram á morgun, nýársdag, hafi verið frestað þar sem Norwich nær ekki í lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert