Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, er ekki ánægður með ummæli sóknarmannsins Romelu Lukaku um að hann sé ekki sáttur við stöðu sína hjá félaginu.
„Líkamlega hef ég það gott. Ég er bara ekki sérlega ánægður með stöðuna, en það er eðlilegt. Ég held að stjórinn hafi ákveðið að stilla upp í öðruvísi leikkerfi en ég verð að halda áfram og sýna fagmennsku.
Ég er ekki ánægður með stöðuna en þetta er atvinna mín og ég má ekki gefast upp,“ sagði Lukaku í samtali við Sky Italia.
Hann sagðist þar einnig gjarna vilja spila aftur fyrir Inter á einhverjum tímapunkti, en hann fór frá Ítalíumeisturunum og aftur til Chelsea í sumar á þessu ári.
Lukaku varð fyrir ökklameiðslum í lok október og þegar hann var að snúa aftur í desember smitaðist hann svo af kórónuveirunni. Nú er hann hins leikfær og er búinn að skora í síðustu tveimur deildarleikjum.
Á blaðamannafundi í dag tjáði Tuchel sig um ummæli Lukaku: „Auðvitað líkar okkur þau ekki. Með þeim kemur hávaði sem við þurfum ekki á að halda og það hjálpar ekkert til.“
„Við viljum ekki gera meira úr þessu en þetta raunverulega er. Það er auðvelt að taka ummæli úr samhengi, að stytta þau og búa til fyrirsagnir og uppgötva svo að þetta er ekki svo slæmt,“ bætti hann við.
Tuchel sagði ummæli Lukaku um ósætti sitt ekki endurspegla þá miklu vinnu sem hann leggi í æfingar á æfingasvæði Chelsea.
Spurður hvort Lukaku hefði átt að halda skoðunum sínum út af fyrir sig sagði Tuchel:
„Þegar þú ert svona stór leikmaður eins og Romelu ertu alltaf í sviðsljósinu. Hann ætti að vita hvaða gildi ummæli hans hafa. Hlutirnir eru alltaf auðveldari þegar við erum að vinna leiki.
Ég held að engum á svæðinu sé ekki kunnugt um að Romelu sé ósáttur. Ég sé enga ástæðu fyrir því að honum líði þannig. Það er það eina sem ég get sagt.“