Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo, leikmaður Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu karla, varð fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að vera rændur og fékk skurð á andlit sitt þegar hann veitti ræningjunum viðnám.
„Í dag var því miður ráðist á mig af fjórum heiglum sem meiddu mig og reyndu að meiða fjölskyldu mína. Þegar þú streitist á móti gerist þetta.
Þeim tókst að taka alla skartgripi mína, hlupust á brott og svona leit andlitið mitt út þegar þeir gerðu það,“ skrifaði Cancelo á Instagramaðgangi sínum í gær og birti mynd af sárum sínum:
„Ég skil ekki hvernig fólk getur verið svona illgjarnt. Það mikilvægasta fyrir mig er fjölskyldan mín og sem betur fer er í lagi með hana.
Eftir að hafa yfirstigið svo margar hindranir á ævinni er þetta bara ein enn sem ég mun yfirstíga, staðfastur og sterkur eins og ávallt,“ skrifaði hann einnig.
Þegar Cancelo var 18 ára lenti hann í bílslysi sem farþegi, slysi þar sem móðir hans lést.
Samkvæmt yfirlýsingu frá Man. City rannsakar lögreglan í Manchester nú málið og hjálpar Cancelo henni sem honum framast er unnt.