Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti það á blaðamannafundi í morgun að þrír aðalliðsleikmenn til viðbótar hefðu smitast af kórónuveirunni og tækju því ekki þátt í stórleiknum gegn Chelsea á sunnudag.
Klopp vildi ekki staðfesta um hvaða leikmenn væri að ræða en Brasilíumennirnir Alisson og Roberto Firmino voru báðir fjarverandi á æfingu í gær og því allar líkur taldar á því að þeir séu tveir þeirra þótt enn sé á huldu hver sá þriðji gæti verið.
„Þið munuð sjá það á sunnudag þegar þið sjáið hópinn, þá verður það morgunljóst hverjir eru smitaðir,“ sagði Klopp.
Áður höfðu Thiago, Fabinho, Curtis Jones og Virgil van Dijk smitast af veirunni um miðjan mánuðinn.
Thiago, sem smitaðist þá í annað skiptið, hóf æfingar aftur í vikunni en meiddist á mjöðm og verður því fjarverandi gegn Chelsea.