Gleymdu að skrá markaskorarann á Afríkumótið

Emmanuel Dennis er í stóru hlutverki hjá Watford.
Emmanuel Dennis er í stóru hlutverki hjá Watford. AFP

Nígeríumenn verða án síns heitasta sóknarmanns um þessar mundir á Afríkumótinu í knattspyrnu en þeir gleymdu að tilkynna hann í leikmannahóp sinn í tæka tíð.

Emmanuel Dennis hefur verið í aðalhlutverki hjá Watford í ensku úrvalsdeildinni í vetur og þótt Watford sé í fjórða neðsta sæti er hann fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar með átta mörk.

Þar sem nígeríska knattspyrnusambandið klúðraði skráningu leikmannsins á réttum tíma er Watford ekki lengur skuldbundið til að leyfa honum að fara á mótið og félagið ætlar að nýta rétt sinn.

Knattspyrnusambandið skýrði frá því að það hefði gefist upp á að reyna að tala Watfordmenn til og hefðu kallað annan leikmann inn í hópinn.

„Ég veit að stjórn félagsins og nígeríska sambandið ræddu málin og ég samþykki þeirra niðurstöðu. Fyrir mér er málið úr sögunni. Við vorum tilbúnir til að láta hann fara en þeir stóðu ekki rétt að málum. Ég ræddi við Emmanuel og hann vildi að sjálfsögðu spila fyrir þjóð sína en hann vill líka gjarnan hjálpa Watford,“ sagði Claudio Raineri, knattspyrnustjóri Watford, við Watford Observer.

Watford spilar tvo lykilleiki í botnbaráttunni, við Newcastle og Norwich, á meðan Afríkumótið stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert