Stórstjarnan Cristiano Ronaldo er ekki sáttur með gengið hjá sér og liðsfélögum sínum hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester United en Ronaldo og félagar hafa átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni.
Ronaldo fór yfir nýliðið ár á Instagram, hæðir og lægðir. „Hjá Juventus var ég stoltur af því að verða bikarmeistari og meistari meistaranna. Ég var svo markahæstur í A-deildinni og markahæstur í Evrópu með landsliðinu. Endurkoman á Old Trafford verður svo alltaf minnisstæð,“ byrjar Ronaldo.
„Ég er hins vegar ekki sáttur við það sem við höfum afrekað á þessari leiktíð. Enginn af okkur er sáttur, ég er viss um það. Við verðum að leggja meira á okkur, spila betur og gera betur en við erum að gera,“ bætti sá portúgalski við.