Stuðningsmaður Leeds United fleygði kókflösku í höfuð Matthews Lowtons, leikmanns Burnley, þegar hann fagnaði 1:1-jöfnunarmarki liðsins í leik sem Leeds vann að lokum 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Maxwel Cornet jafnaði metin fyrir Burnley og þegar Lowton fagnaði markinu ásamt liðsfélögum sínum fékk hann plastflösku í ennið, sem varð til þess að Lowton var með rauðan blett á því. Sýndi hann dómaranum Paul Tierney hvað hafði gerst.
„Ég vona að það sé í lagi með hann, þetta er nokkuð sem við viljum ekki sjá. Ég vil ekki gera of mikið úr þessu, það var frábær stemning á vellinum.
Við vorum bara vitlausum megin við stemninguna þegar þetta gerðist, en ég vil ekki gera of mikið mál úr þessu,“ sagði Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, við Sky Sports eftir leik.