Stuðningsmaður Leeds kastaði flösku í leikmann Burnley

Matthew Lowton fékk kókflösku í ennið.
Matthew Lowton fékk kókflösku í ennið. AFP

Stuðningsmaður Leeds United fleygði kókflösku í höfuð Matthews Lowtons, leikmanns Burnley, þegar hann fagnaði 1:1-jöfnunarmarki liðsins í leik sem Leeds vann að lokum 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.

Maxwel Cornet jafnaði metin fyrir Burnley og þegar Lowton fagnaði markinu ásamt liðsfélögum sínum fékk hann plastflösku í ennið, sem varð til þess að Lowton var með rauðan blett á því. Sýndi hann dómaranum Paul Tierney hvað hafði gerst.

„Ég vona að það sé í lagi með hann, þetta er nokkuð sem við viljum ekki sjá. Ég vil ekki gera of mikið úr þessu, það var frábær stemning á vellinum.

Við vorum bara vitlausum megin við stemninguna þegar þetta gerðist, en ég vil ekki gera of mikið mál úr þessu,“ sagði Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, við Sky Sports eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert